| Home | Vorönn 2003
Vorönn 2003

HEIMASÍÐA SÖNDRU & GENNA

Janúar 2003
 
Árið byrjaði rólega en vel!  Sandra, Genni, Ozzy og Hreinn eyddu jólunum í Baton Rouge og Víkingur kom frá Íslandi um miðjan mánuðinn.  Við fórum svo öll (nema Ozzy) í skemmtilega ferð til Houston þar sem við skoðuðum NASA SpaceCenter og Galleria Mall, hittum nokkra Íslendinga, og féllum fyrir alveg æðislegum kínverskum stað sem heitir P.F Chang's. 
 
Skólinn byrjaði þriðjudaginn 21 janúar (alltaf daginn eftir Martin Luther King Day) og Sandra byrjaði að vinna með skólanum hjá Student Media en sú deild sér um alla fjölmiðla skólans, þe skóladagblaðið, tímaritið, sjónvarpstöðina, útvarpstöðina, og ársbókina.  Genni var áfram hjá Merrill Lynch með skólanum og vann þar á mánud., miðvikud., og föstudögum.  Hann var í skólanum á þriðjud., fimmtud. og í einum tíma á miðvikudagskvöldum.  Semsagt nóg að gera!

27. janúar fórum við á frábæra tónleika með Coldplay í Saenger leikhúsinu í New Orleans en við höfðum keypt miðana nokkrum mánuðum fyrr á Ticketmaster.  Þetta voru alveg geggjaðir tónleikar, þeir spiluðu alveg hellengi og voru með rosa flott ljósa show!  Svo er þetta leikhús alveg sérstaklega fallegt þó það sjáist ekki að utan.  Inni í salnum er allt skreytt í rómverskum stíl og veggirnar fallega málaðir eins og maður sé í gömlu, rómversku eða ítölsku útileikhúsi. 

Febrúar 2003

27. febrúar fórum við á rosa fínt Mardi Gras ball í New Orleans.  Mark, yfirmaður Genna hjá Merrill, var kóngur Babylon, en það er eitt félagið sem er með skrúðgöngu og ball árlega í kringum Mardi Gras hátíðina.  Kvöldið byrjaði rétt fyrir kl. 18 en þá var farið í rútu á bar þar sem var fordrykkur og snarl.  Þaðan var labbað út á pall til að horfa á skrúðgönguna og eftir það farið í hálfgerða leiksýningu sem útskýrði (einum of ítarlega) þema ársins... sem voru leikrit eftir höfundinn sem skrifaði m.a. West Side Story og Dick Tracy.  Klukkan tólf var svo miðnæturball og kvöldmatur.... og skemmtum við okkur mjög vel langt fram á nótt. 

Mars 2003

Við byrjuðum mánuðinn á því að fara á hina árlegu Spanish Town Parade sem er haldin í Baton Rouge á laugardeginum fyrir Mardi Gras.  Þar kíktum við á David frænda hennar Julie sem á alveg æðislegt hús akkurat í miðju spænska hverfinu og horfðum þaðan á skrúðgönguna og fengum ekta Louisiana mat, Gumbo og Jambalaya!

Daginn eftir lögðum við aft stað til New Orleans til að sjá Baccus skrúðgönguna.  Við vorum komin heldur snemma og settumst við aðeins niður við barinn á House of Blues.  Þema skrúðgöngunar var svo frægar bíómyndir og voru prammarnir skreyttir með ET, Spiderman, Terminator, King Kong, ofl.  Kvöldið endaði með stuttu rölti niður Bourbon Street en við komumst ekki langt áður en einhver náði að stinga hendinni ofan í töskuna hennar Söndru og stela nýju digital myndavélinni. 

Í lok mars héldum við svo aftur til New Orleans og í þetta skipti á tónleika með Sigur Rós á House of Blues.  Við fengum okkur að borða á veitingastaðnum og fórum svo inní sérstakan tónleikasal til að sjá þá spila.  Þetta voru frábærir tónleikar... það horfðu allir dolfallnir á og var þetta alveg sérstök upplifun.  Á tónleikunum hittum við Íslenskan strák sem heitir Tryggvi og sér um veitingastaðinn á W hótelinu í New Orleans.  Við fórum svo öll saman á djammið í franksa hverfinu eftir tónleikana. 

Apríl 2003

Aprílmánuður byrjaði á alveg sprenghlægilegum brandara sem allir eru löngu búnir að jafna sig á og gleyma!  En í seinasta sinn, "so sorry"!!!

Fljótlega þar á eftir átti Sandra afmæli og var haldin smá grillveisla í íbúð 83!  Þar mættu Hreinn og Víkingur með fjóra litla bangsa (fjórbura) og óléttupróf (svo önnur eins mistök ætti sér ekki stað aftur!)  (thíhíhí!)

Vorfríið okkar (Spring Break) var frá 12 - 20 apríl.  Genni fór í skólarferðalag til New York með öðrum Finance nemum, en Sandra, Hreinn og Víkingur lágu í sólbaði.  Var þetta hið ágætasta frí fyrir utan það að allir í borginni héldu að fjöldamorðinginn myndi fara aftur á kreik (hann átti það til í skólafríum).  -en sem betur fer varð ekkert úr því.

Við héldum svo uppá páskana með stæl og góðum grillmat.  Við reyndar ákváðum að halda uppá daginn á laugard.kvöldinu svo við ættum frídag daginn eftir! 

Maí 2003

Maí!  Hvar á maður að byrja!  Maí var svoldið klikkaður mánuður!  Skemmtilegur og létt geggjaður!  :)  Við byrjuðum mánuðinn á að klára það seinasta í skólanum, undirbúa okkur fyrir seinustu prófin í LSU, og liggja smá í sólbaði í góða veðrinu!  10. maí var okkur boðið í veislu sem íslenski konsúllinn í New Orleans hélt á Avery Island, sem er staðurinn sem Tabasco er búið til.  Þar sem þetta var laugardagurinn fyrir próf og Genni og Víkingur voru báðir í prófum strax í byrjun vikunar fóru bara Sandra og Hreinn.  Þetta var með fallegri stöðum sem ég hef séð í Louisiana!  Við fengum rosalega gott veður, húsið var alveg stórkostlegt, og allt til alls í veislunni.

Prófin voru svo frá 12. til 17. maí en Sandra kláraði miðvikudaginn 14. og Genni fimmtudaginn 15.  Þar sem Hreinn og Víkingur voru ekki búnir tókum við daginn bara með ró, lögðum okkur og ákváðum að geyma tiltektina þangað til á föstudaginn, enda engin ástæða til að flýta sér, væntanlegir gestir ekki að koma fyrr en í vikunni á eftir !!!  Þetta kvöld var lokaþáttur í Friends í sjónvarpinu og við höfðum það bara gott tvö í kotinu með rauðvínsflösku(r) og pantaðan mat!  Klukkan rúmlega 9 hringdi Gústa frá "Íslandi" þar sem hún "lá andvaka og hafði verið að reyna ná í okkur"!!!  Við ræddum um prófin, útskriftina, og hvað væri leiðinlegt að þau kæmust ekki til okkar í þetta skipti...  Svo bankaði einhver á hurðina og Genni kallaði (eins og vanalega) "kom inn" en engin kom inn.  ???Hver kann ekki að koma inn þegar Genni kallar "kom inn" - á endanum stóð Genni upp og opnaði hurðina, enda Sandra enn í símanum að tala við Gústu!  Nei nei, labbar þá ekki Grófarsmára fjölskylan inn eins og ekkert sé!  Við verðum að viðurkenna að okkur brá alveg rosalega, þau náðu okkur algjörlega!  -það segja allir að við höfum átt þetta skilið og við samþykkjum það alveg, en við erum samt enn yfir 2-1!!!

Þriðjudaginn 18. maí komu svo Lilja og Teitur og Gunnar og Sollý bættust í hópinn 22. maí.  Aldrei hafa verið svo margir Íslendingar í Louisiana.... og við skemmtum okkur rosa vel.  New Orleans var skoðuð fram og aftur og allir fengu að prófa ekta suðurríkja mat!  Það var alveg yndislegt að hafa fjölskylduna okkar hjá okkur og við erum svo þakklát að þau komust til að vera með okkur á útskriftardaginn.  Þann 23ja var svo útskriftin sjálf.  Klukkan 9 um morgunin var aðal-athöfnin og þar talaði frú Cheney fyrir manninn sinn en hann komst víst ekki sjálfur eins og gert var ráð fyrir upprunalega.  Útskriftarathöfnin hans Hreins var svo klukkan 12:30, hjá Söndru og Genna var hún klukkan 16:30 og svo kokteilboð í íbúð nr. 83 (þar sem við eigum heima) klukkan 18. 

Íslendingarnir byrjuðu að yfirgefa staðinn Sunnudaginn 25. maí og þeir seinstu fóru 27. maí... og erum við því hér ein eftir!  Hreinn er alveg fluttur burt... en er mjög líklega á leiðinni til Bretlands í framhaldsnám í haust.  Víkingur á 3 annir eftir í LSU og kemur tilbaka um miðjan ágúst og erum við að vonast til að vera flutt fyrir það!  ;)  hahaha... ekkert á móti Víkingi, en ef við erum hér enn þá þýðir það að öllum líkindum að við séum enn ekki komin með vinnu!  ;)

Í öðrum Maí fréttum gerðist það í lok mánaðarins að þeir fundu loksins Baton Rouge raðmorðingjan og er búið að tengja hann við 6 morð hér á svæðinu með DNA á seinustu 2 árum.  Þeir vissu um 5 en svo bættist ein við í vikunni þegar fleiri DNA próf voru gerð.  Hjúkkitt - nú getur maður andað léttar þó þetta hafi kennt öllum hvað maður þarf að fara varlega!